Sagan

Upphafið

Björn Sigurðsson fæddist á Húsavík árið 1946. Fram að tvítugu vann Björn við ýmis störf. Fyrstu verkefni tengd þungavinnuvélum komu upp í hendurnar á honum árið 1965 þegar Húsavíkurbær festi kaup á nýrri JCB traktorsgröfu. Í kjölfarið fylgdu síðan ýmis sambærileg störf ásamt akstri vörubíla, flutningabíla og leigubíls. Síðastnefnda farkostinum var fljótlega skipt út fyrir kröftuga stóra jeppabifreið sem dugði vel við að flytja fólk um misgóða malarvegi og vegleysur víða um Norður- og Austurland. Algeng verkefni voru t.d. akstur með áhafnir síldarbáta og lækna um Þingeyjarsýslur fyrir nýstofnaða læknamiðstöð á Húsavík.

Við upphaf sjöunda áratugarins fór Björn að viða að sér þungvinnuvélum og tók að sinna ýmsum verkefnum þeim tengdum. Um þetta leyti voru í gangi umsvifamiklar hitaveitaframkvæmdir á Húsavík auk þess sem bærinn naut ágætrar þenslu á byggingarmarkaðnum.

F1000014.JPG

Framgangurinn

Um miðbik áttunda áratugarins stofnaði Björn Sigurðsson sameignarfélagið Drif með bræðrum sínum Sigurði og Þórði, ásamt Jóhannesi Helgasyni. Fyrirtækið haslaði sér völl í jarðvinnu og leigði vélar t.d. til vinnuflokka frá Pósti og síma. Á þessum tíma leysti jarðsíminn gömlu loftlínurnar af hólmi og vann flokkurinn að lagningu hans, allt frá Svarfaðardal og austur á Langanes. Árið 1989 gerðu þeir félagar hjá Drif sf. verktakasamning við umfangsmikla lagningu á ljósleiðarastreng frá Akureyri um Húsavík að Lundi við Axarfjörð, en um það stofnuðu þeir hlutafélagið BSH árið 1990. Verkefnið var unnið sameiginlega fyrir Póst og síma og Varnarmálastofnun, en upphaflega átti þessi tækni að nýtast vel í öðru sambærilegum verkefnum víða um land. Fyrirtækið sá síðan um breiðbandslagnir í nánast öll hús á Húsavík á árunum 1996-98.

Segja má að níundi og tíundi áratugurinn í heild sinni hafi verið einstakur uppgangstími fyrir sameignarfélagið Drif og hlutafélag BSH. Að undanskilinni jarðvinnuverktökunni fólst reksturinn í umfangsmikilli fólkflutninga- og ferðaþjónustu ásamt sérleyfisakstri um Norður- og Austurland auk nokkurra ferða með hópa til Færeyja og meginlands Evrópu. Fyrir utan öll þessi umsvif hafði Björn Sigurðsson á sinni könnu skipaafgreiðslu Ríkisskipa, Samskipa og rekstur bensínsölu, sjoppu og dreifingu á eldsneyti fyrir Skeljung ásamt ýmsu fleiru.

110.JPG
330.JPG
336.JPG

Nýtt fyrirtæki

Fyrirtækið Hóll ehf. hafði verið stofnað árið 1988 en hóf þó ekki fulla starfsemi fyrr en árið 2002. Þetta sama ár hafði BSH hætt starfsemi, selt megnið af rekstrinum og sameinað öðrum. Eftir stóð eingöngu vinnuvéla- og flutningaþjónustan sem rann saman við Hól ehf. en fyrirtækið er í dag rekið af þeim bræðum Birni og Þórði. Floti þess er vel búinn nauðsynlegum vinnuvélum og tækjum en þar má finna t.d. gámaflutningabíla, tengivagna, vörubíla, kranabíl, gröfur, hjólaskóflu, veghefil, jarðýtu, jarðvegsplóga fyrir vatnslagnir og jarðstrengi, brotfleyg, staurabor, valtara og þjöppur. Í dag sinnir fyrirtækið að mestu flutninga- og vinnuvélaþjónustu ásamt tilfallandi jarðvegsframkvæmdum. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði 6-10 manns.